Auðlesið um Alþingi
Stuttir textar um Alþingi - smelltu á orðin sem þú vilt lesa skýringar um.
Alþingi og lýðræði
- Á Íslandi er fulltrúa-lýðræði.
- Það þýðir að fólk kýs um hverjir eigi að stýra landinu.
- Á Íslandi er kosið milli stjórnmála-flokka.
- Menn velja sér stjórnmála-flokk eftir skoðunum, hugsjónum, stefnum og hagsmunum.
- Allir 16 ára og eldri geta gerst meðlimir í stjórnmála-flokki. Fjölmiðlar - dagblöð, netmiðlar, útvarp og sjónvarp - eru mikilvægir fyrir lýðræði að því gefnu að þeir endurspegli ólík sjónarmið og skoðanir.
Alþingis-kosningar
- Íslendingar velja í kosningum hverjir stýra landinu.
- Kosningar eru alla jafnan haldnar á 4 ára fresti.
- Allir íslenskir ríkisborgarar 18 ára og eldri velja hvaða stjórnmála-flokk þeir vilja fá á þing.
- Á Alþingi eru 63 fulltrúar stjórnmála-flokkanna. Þeir kallast þingmenn.
- Íslandi er skipt í 6 kjördæmi. 3 eru á landsbyggðinni og 3 á höfuðborgar-svæðinu. Ákveðinn fjöldi þingmanna er kosinn í hverju kjördæmi.
Hvernig kýst þú?
- Flestir kjósa á kjörstað í því kjördæmi þar sem þeir eru með lögheimili á kjördag. Kjörstaðir eru í skólum eða á öðrum opinberum stöðum í kjördæminu.
- Á kjörstað færðu kjörseðil. Á hann merkir þú við þann stjórnmála-flokk sem þú vilt að komist á þing.
- Þú getur breytt röð nafna á lista þess flokks sem þú kýst með því að setja tölustafinn 1 fyrir framan það nafn sem þú vilt hafa í 1. sæti, töluna 2 fyrir framan það nafn sem þú vilt hafa í 2. sæti og svo framvegis. Ef þú vilt hafna frambjóðanda á þeim lista sem þú kýst strikar þú yfir nafn hans.
- Kosningar eru leynilegar.
- Kosið er í kjörklefa svo aðrir sjá ekki til.
- Síðan seturðu kjörseðilinn í sérstakan kjörkassa.
- Það er mikilvægt að allir kjósi.
- Ef þú veist að þú kemst ekki á kjörstað á kjördag geturðu kosið áður hjá hreppstjórum og sýslumönnum um land allt.
- Ef þú ert erlendis geturðu kosið í sendiráðum eða hjá ræðismönnum Íslands erlendis. Á vefsíðunni www.kosning.is er listi yfir hvar sendiráð og ræðismenn eru í útlöndum.
Hverjir komast á Alþingi?
- Þegar kosningum lýkur er talið hve mörg atkvæði hver stjórnmála-flokkur fékk.
- Hver stjórnmála-flokkur verður að fá ákveðinn fjölda atkvæða til að ná fulltrúa sínum á þing. Núna eiga átta stjórnmála-flokkar þingmenn á Alþingi.
- Hér fyrir neðan má sjá hve marga þingmenn hver stjórnmála-flokkur fékk á Alþingi eftir kosningarnar 2017:
Flokkur fólksins 4 þingmenn | |
Framsóknarflokkurinn 8 þingmenn | |
Miðflokkurinn 7 þingmenn | |
Píratar 6 þingmenn | |
Samfylking 7 þingmenn | |
Sjálfstæðisflokkur 16 þingmenn | |
Viðreisn 4 þingmenn | |
Vinstrihreyfingin – grænt framboð 11 þingmenn |
Ríkisstjórn
- Þegar vitað er hverjir komast á þing þarf að mynda ríkisstjórn.
- Ríkisstjórnin þarf að hafa stuðning meiri hluta þingmanna.
- Þess vegna hefur sá stjórnmála-flokkur sem fékk flest atkvæði í kosningum oftast forustu um myndun ríkisstjórnar með öðrum flokki eða flokkum.
- Ríkisstjórnar-flokkarnir ákveða hverjir verða ráðherrar í ríkisstjórninni. Oftast koma þeir úr röðum þingmanna.
- Ríkisstjórnin stýrir landinu ásamt þinginu. Ef þingið er ósátt við vinnu ríkisstjórnar getur það komið með vantrausts-tillögu. Ef hún er samþykkt þarf ríkisstjórnin að víkja.
Stjórnar-andstaða
- Þeir flokkar sem eru ekki í ríkisstjórn eru í stjórnar-andstöðu.
- Stjórnar-andstaðan veitir ríkisstjórninni aðhald, til dæmis með því að leggja fram fyrirspurnir til ráðherra um ýmis málefni.
Hlutverk Alþingis
- Alþingi setur lög.
- Alþingi fer með fjárstjórnar-vald.
- Á Alþingi fara fram mikilvægar stjórnmála-umræður.
- Alþingi veitir ríkisstjórn aðhald.
Alþingi setur lög
- Ráðherrar og þingmenn geta komið með tillögur að nýjum lögum eða tillögur að breytingum á lögum sem eru í gildi.
- Þegar ríkisstjórnin, eða sá ráðherra sem málið heyrir undir, leggur fram tillögu að nýjum lögum fyrir þingið kallast hún stjórnar-frumvarp.
- Þegar þingmenn, bæði stjórnar-þingmenn og stjórnarandstöðu-þingmenn, leggja fram tillögu kallast hún þingmanna-frumvarp.
- Frumvarpinu fylgja athugasemdir eða greinargerð þar sem tilgangurinn með frumvarpinu er útskýrður.
- Til að lög taki gildi þarf meiri hluti þingmanna að segja já. Annars verður frumvarpið ekki að lögum. Þess vegna verða fleiri stjórnar-frumvörp en þingmanna-frumvörp að lögum. Þegar ríkisstjórnin gerir tillögu að nýjum lögum verður þingið að samþykkja eða hafna henni.
Frumvörp til laga eru rædd við 3 umræður í þinginu.
- Við 1. umræðu er frumvarpið rætt almennt. Eftir 1. umræðu um frumvarp er málinu vísað til þingnefndar. Þingmenn sem sæti eiga í nefndinni ræða málið og fá álit sérfræðinga og hópa sem hafa hagsmuna að gæta. Þingnefndir leggja fram nefndarálit þar sem þær mæla annaðhvort með því að frumvarp verði samþykkt eða ekki. Stundum verða nefndarmenn ekki sammála og senda frá sér fleiri en eitt nefndarálit. Nefndir og nefndarmenn koma oft með tillögur að breytingum á frumvarpinu fyrir 2. umræðu.
- Við 2. umræðu í þinginu eru greidd atkvæði um breytingar-tillögur ef einhverjar eru og þær annaðhvort samþykktar eða felldar. Stundum fara mál aftur í nefnd milli 2. og 3. umræðu.
- Við 3. umræðu eru greidd atkvæði um málið í heild. Ef frumvarp er samþykkt er það sent ríkisstjórn sem lög frá Alþingi. Lög taka gildi þegar þau hafa verið undirrituð af forseta Íslands og birt í Stjórnartíðindum.
Stjórnarfrumvarp |
---|
1. umræða |
Nefndarálit |
Breytingartillaga |
2. umræða |
Frumvarp eftir 2. umræðu |
3. umræða |
Lög |
Alþingi fer með fjárstjórnar-vald
- Alþingi ákveður í hvað peningar ríkisins fara. Á hverju hausti leggur ríkisstjórnin fram frumvarp fyrir þingið með tillögum um það í hvað peningar ríkisins eigi að fara. Frumvarpið kallast fjárlaga-frumvarp. Þingið fjallar síðan um fjárlaga-frumvarpið og þarf að samþykkja það fyrir áramót.
- Alþingi ákveður einnig hvað þarf að leggja mikinn skatt á tekjur fólks og fyrirtækja, virðisauka-skatt á vörur og fleiri gjöld.
Á Alþingi fara fram mikilvægar stjórnmála-umræður
- Áður en Alþingi samþykkir eða hafnar máli ræða þingmenn það í þingsalnum.
- Alþingi getur lýst stefnu sinni eða ákvörðunum án þess að setja lög eða reglur. Það er gert með þingsályktun. Þá skorar þingið á ríkisstjórnina að sjá um að framkvæma verkefni, semja frumvarp eða rannsaka tiltekið mál. Þingmenn nota oftast þingsályktanir til að kynna stefnumál sín.
Alþingi veitir ríkisstjórn aðhald
- Alþingi veitir ríkisstjórn aðhald, til dæmis með því að leggja fram fyrirspurnir til ráðherra um ýmis málefni.
Þingnefndir
- Til að þingið geti unnið að öllum þingmálum verða þingmenn að skipta með sér verkum.
- Á þinginu starfa vinnuhópar sem kallast þingnefndir.
- Nefndirnar eru 8 og sinna ákveðnum málum. Allsherjar- og menntamála-nefnd vinnur til dæmis með mannréttinda-mál og mál sem tengjast kennslu og skólum. Umhverfis-nefnd fjallar meðal annars um mál sem tengjast náttúru- og dýravernd.
- 9 þingmenn frá öllum flokkum sitja í nefndunum. Fjöldi þingmanna úr hverjum flokki fer eftir því hvað stjórnmála-flokkurinn fékk mörg þingsæti í kosningum.
- Þegar þingnefnd hefur lokið vinnu við þingmál skrifar hún nefndarálit. Í nefndaráliti kemur fram skoðun nefndar á máli og oft tillögur að breytingum. Oftast samþykkir þingið það sem nefndin leggur til.
- Fastanefndir:
- Allsherjar- og menntamálanefnd
- Atvinnuveganefnd
- Efnahags- og viðskiptanefnd
- Fjárlaganefnd
- Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd
- Umhverfis- og samgöngunefnd
- Utanríkismálanefnd
- Velferðarnefnd
Þingsalur
- Þingfundir eru haldnir í þingsal Alþingis-hússins. Yfirleitt er fundað fjóra daga í viku á þeim tíma sem þingið starfar, frá hausti til vors. Allir þingmenn og ráðherrar eiga sitt sæti í þingsalnum.
- Allir sem vilja geta fylgst með þingfundum á þingpöllum. Auk þess er sjónvarpað beint frá þingfundum og þeir eru sendir út á vef Alþingis, www.althingi.is .
- Allt sem sagt er í þingsalnum er skrifað niður. Hægt er að lesa ræður þingmanna á vef Alþingis. Einnig er hægt að lesa ræður í Alþingistíðindum frá árinu 1845.
- Þegar umræðum er lokið um ákveðið mál eru greidd atkvæði um það. Þingmennirnir ýta á takka í borðum sínum þegar þeir greiða atkvæði. Þar eru þrír takkar; „já“, „nei“ og „greiði ekki atkvæði“.Þegar þingmenn ýta á takka sést strax á töflu í þingsal hverjir segja já og hverjir segja nei. Þeir sem vilja ekki taka afstöðu greiða ekki atkvæði. Það er svo meiri hlutinn sem ræður.
Hvernig getur þú haft áhrif?
- Þú getur skrifað þingmönnum bréf eða sent tölvupóst um mál sem þér finnast mikilvæg. Netföng þingmanna eru á www.alþingi.is. Heimilisfang: Alþingi, 101 Reykjavík.
- Þú getur líka hringt í þingmenn og komið sjónarmiðum þínum á framfæri. Sími: 563 0500. Þú getur skrifað fjölmiðlum og gefið þeim ábendingar.
- Öllum er heimilt að senda nefnd umsögn um þingmál. Leiðbeiningar.
Heimsóknir hópa í Alþingishúsið
- Tekið er á móti gestum sem vilja skoða Alþingishúsið og fræðast um starfsemi þingsins.
- Tekið er við pöntunum í síma 563 0500 eða í gegnum netfangið heimsoknir@althingi.is.
©Bragi Þór Jósefsson.